Innlent

Íslendingar með sendifulltrúa í Palestínu

Íslendingar verða með sérstakan sendifulltrúa gagnvart Palestínu. Frá þessu var greint á blaðamannafundi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra og Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, í Ráðherrabústaðnum.

Þau ræddu saman á um klukkustundar löngum fundi og helstu tíðindin voru þau að Þórður Ægir Óskarsson verður sérlegur sendifulltrúi Íslands í Palestínu. Hann hefur þó aðsetur hér að sögn utanríkisráðherra en mun heimsækja heimastjórnarsvæði Palestínu reglulega og ræða við aðila þar.

Sagði Ingibjörg Sólrún að þetta væri í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld skipuðu sendifulltrúa gagnvart Palestínu en með þessu vilja stjórnvöld leggja sitt af mörkum til þess að friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ingibjörg Sólrún sagði eftir fundinn ánægð að fá Abbas í heimsókn til Íslands. Ein af fyrstu heimsóknum hennar sem utanríkisráðherra til útlanda hefði verið til Ísraels og Palestínu og þá hefði hún fundað með Abbas á Ramallah en hún hefði ekki haft hugmynd um að Abbas heimsækti Ísland tíu mánuðum síðar. Sagðist hún ánægð að geta rætt friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs sem hún styddi að fullu.

Ræddi við fulltrúa allra stjórnmálaflokka

Abbas sagðist mjög ánægður að vera á Íslandi og fá tækifæri til þess að ræða við bæði forseta og utanríkisráðherra. Þá hefði hann einnig rætt við fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Íslandi um sameiginlega hagsmuni landanna. Sagði hann utanríkisráðherra hafa lýst því yfir að vonandi næðist samkomulag um frið milli Ísraela og Palestínumanna og hann vonaðist til að það næðist fyrir árslok. Þá sagðist hann þakklátur fyrir það að Íslendingar hygðust skipa sérstakan sendifulltrúa gagnvart Palestínu og það væri mikilvæg ákvörðun. Hún endurspeglaði vilja Íslendinga til þess að taka þátt í friðarferlinu.

Rætt um mannréttindamál

Utanríkisráðherra var spurð hvort hún hefði tekið upp mannréttindamál við forseta Palestínu eins og Amnesty International hefði óska eftir. Ingibjörg Sólrún svaraði því til að hún hefði rætt yfirvofandi aftöku 23 ára gamals manns. Abbas sagðist hafa tekið hvert orð utanríkisráðherra alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×