Innlent

Pólverjar í haldi lögreglu grunaðir um umfangsmikið e-töflu smygl

Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar umfangsmikið fíkniefnamál. Fimm eru í haldi grunaðir um að hafa smyglað til landsins talsverðu magni af e-töflum.

Tollayfirvöld fundu e-töflurnar við eftirlit í lok síðustu viku, en reynt var að smygla fíkniefnunum í póstsendingu. Upplýsingarnar um málið eru takmarkaðar að svo stöddu og varðist lögregla allra frétta, enda stendur rannsókn málsins sem hæst. Þó fékkst staðfest hjá fíkniefnadeild lögrelunnar að málið sé talið vera umfangsmikið.

Yfirheyrslur yfir mönnunum fimm hafa staðið yfir í dag, en ekki var ljóst fyrir fréttir hvort krafist yrði gæsluvarðhalds yfir mönnunum eða farbanns, eða hvort þeim yrði sleppt.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru mennirnir allir frá Póllandi og hafa verið búsettir hérlendis. Ekki fékkst staðfesting á því hvort fleiri væri grunaðir um að vera viðriðnir málið eða hvort einhverjir Íslendingar kæmu að því.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×