Innlent

Rúmlega 1600 manns sækja um nám í HÍ

Metfjöldi umsókna varð hjá Háskóla Íslands fyrir vormisseri 2009 eða 1625 talsins. 894 sóttu um grunnnám sem er rúmlega fjórföldun á milli ára. 731 sóttu um framhaldsnám sem er meira en sjöfalt fleiri en teknir voru inn í HÍ í fyrra.

Í tilkynningu frá HÍ segir að nú þegar umsóknafresti er lokið er ljóst að meiri áhugi er fyrir námi við Háskóla Íslands en nokkru sinni fyrr á þessum árstíma. Fyrir eru í skólanum rösklega 12 þúsund nemendur og nemur fjöldi umsókna því um 13% af öllum nemendum Háskóla Íslands.

Fjöldi umsókna kann enn að aukast þó umsóknafresti hafi lokið í gær þar sem ætla má að einhverjir hafi sent umsóknir með pósti sem mun berast á næstu dögum.

Ljóst er að breytingar á vinnumarkaði hafa valdið sprengingu í fjölda umsókna um grunn- og framhaldsnám við Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur var framlengdur til 15. desember sl. vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hve margir nemendur munu í reynd hefja nám á vormisseri, en háskólaráð mun fjalla um málið á fundi sínum í dag. Unnið verður af kappi við úrvinnslu umsókna á næstu dögum og er stefnt að því að afgreiðslu verði lokið fyrir áramót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×