Erlent

Stjórnvöld í Burma segja 78 þúsund hafa farist

MYND/AP

Stjórnvöld í Burma segja að 78 þúsund hafi fundist látnir eftir að fellibylurinn Nargis reið yfir landið fyrir tveimur vikum. Þá er sagt að 58 þúsund manns sé enn saknað. Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn áætla að manntjónið sé mun meira. SÞ óttast að hundrað þúsund manns hafi farist í hamförunum og Rauði krossinn telur að tala látinna gæti náð 128 þúsundum.

Sameinuðu Þjóðirnar hafa deilt á herforingjastjórnina í landinu og segja að ferðahömlur sem settar eru á hjálparstarfsmenn í landinu valdi því að alþjóðlegar stofnanir eigi erfitt með að meta tjónið af völdum Nargis.

John Holmes, sem er háttsettur erindreki Sameinuðu Þjóðanna á sviði mannréttindamála er á leið til landsins á sunnudag og mun hann reyna að fá herforingjana til að opna landið fyrir hjálparstarfsmenn en hingað til hafa þeir verið mjög tregir til að gefa vegabréfsáritanir.

Þrýstingur alþjóðasamfélagsins eykst dag frá degi og gríðarleg óánægja ríkir með vinnubrögð stjórnvalda í landinu. Her- og lögreglumenn hafa sett upp farartálma sem miða að því að koma í veg fyrir að útlendir hjálparstarfsmenn komist til flóðasvæðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×