Innlent

Bjargráðasjóður lagður niður

Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að Bjargráðasjóður verði lagður niður. Um leið á að skipta eignum hans á milli eigenda, sem eru ríkið, sveitarfélögin og Bændasamtök Íslands.

Sjóðurinn á sér nærri hundrað ára sögu og var komið á fót í þeim tilgangi að koma til hjálpar landsmönnum í hallæri eða til að afstýra því. Í byrjun síðustu aldar þegar sjóðurinn var stofnaður gátu búfjárfellir og önnur áföll í landbúnaði haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa sveitarfélaganna. Var stjórn sjóðsins m.a. falið það hlutverk að hafa vakandi auga á öllum hallærishættum og veita landsstjórninni lið til allra framkvæmda sem miðuðu að því að afstýra hallæri.

Hin síðari ár hefur Bjargráðasjóður skipst í tvær deildir, almenna deild og búnaðardeild. Hlutverk almennu deildar sjóðsins er að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar bein tjón af völdum náttúruhamfara en búnaðardeild bætir tjón á búfé og afurðum búfjár og uppskerutjón á garðávöxtum. Hlutverk sjóðsins hefur hins vegar minnkað með aukinni tryggingavernd.

Nettóeign Bjargráðasjóðs í árslok 2007 var samkvæmt ársreikningi tæpar 660 milljónir og koma því um 220 milljónir í hlut hvers eiganda. Miðað er við að uppgjöri sjóðsins verði lokið fyrir árslok 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×