Innlent

Óttast að verðbólga aukist frekar vegna veikningar krónunnar

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingru ASÍ, segir stöðu efnahagsmála grafalvarlega.
Ólafur Darri Andrason, hagfræðingru ASÍ, segir stöðu efnahagsmála grafalvarlega. MYND/Billi

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir nýjar verðbólgutölur ekki koma á óvart en segir stöðu efnahagsmála grafalvarlega. Hann hefur jafnframt áhyggjur af því að verðbólgan eigi enn eftir aukast styrkist gengi krónunnar ekki á ný.

Nýjar tölur Hagstofunnar sýna að verðbólgan í júní mælist 12,7 prósent og hækkaði hún um 0,4 prósentustig frá fyrra mánuði. Ólafur Darri segir að því miður komi tölurnar ekki á óvart og bendir á að um sé að ræða hæstu verðbólgu í landinu í 18 ár. „Þetta er grafalvarleg staða," segir Ólafur Darri.

Hann bendir á að verðhækkanir á húsnæði séu hættar að leiða verðbólguhækkun eins og tilfellið var fyrir nokkrum misserum. Farið sé að draga saman með vísitölu neysluverðs með og án húsnæðis. Hann á von á því að húsnæðisliður neysluverðsvísitölunnar lækki þegar líður á árið og það geti þá unnið gegn verðbólgunni.

„Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því að gengisfall krónunnar síðustu daga eigi eftir að koma fram í verðbólgunni," segir Ólafur Darri og vísar til þess að mæling á vísitölu neysluverðs fari fram um miðjan mánuðinn, en það var áður en gengi krónunnar tók mikla dýfu. „Ef krónan styrkist aftur ætti það að hjálpa til en ef ekki getum við búist við að innflutningsverðlag hækki sem aftur hefur áhrif á verðbólguna, segir Ólafur Darri enn fremur.

Aðspurður hvort hægt sé að grípa til einhverra aðgerða til þess að bregðast við þessy segir Ólafur Darri að það sé engin töfralausn til. „Það skiptir máli að veita markaðnum aðhald núna þegar gríðarlegar sveiflur eru í genginu. Víð verðum að fylgjast með því að menn séu ekki bara að taka til sín hækkanir þegar gengið lækkar heldur lækki líka verðið þegar gengið styrkist," segir Ólafur Darri og vísar meðal annars í tíðar verðbreytingar á eldsneyti að undanförnu.

Hann segir árvekni neytenda skipta miklu máli og bendir á að ASÍ hafi reynt að vera á vaktinni á matvörumarkaði með tíðum verðkönnunum. „En meðan við búum við þessa mynt, minnstu fljótandi mynt í veröldinni, þá verður þetta herkostnaðurinn," segir Ólafur Darri.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×