Lífið

Þriðju kynslóðar lúðraþeytir

Sjaldan fellur eplið… Þrjár kynslóðir tónlistarmanna samankomnar. Björn R. Einarsson, Baldvin Oddsson og Oddur Björnsson eftir tónleikana.
Sjaldan fellur eplið… Þrjár kynslóðir tónlistarmanna samankomnar. Björn R. Einarsson, Baldvin Oddsson og Oddur Björnsson eftir tónleikana. Fréttablaðið/vilhelm

„Þetta gekk mjög vel. Mjög gaman og frábær lífsreynsla,“ sagði Baldvin Oddsson, fjórtán ára trompetleikari, eftir að hafa spilað einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í gær.

Ekki á Baldvin langt að sækja hæfileika sína á tónlistarsviðinu því faðir hans, Oddur Björnsson, er básúnuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Afi hans, Björn R. Einarsson, var einnig básúnuleikari við hljómsveitina á árum áður. Enginn þrýstingur kemur frá þeim að verða tónlistarmaður í framtíðinni, segir Baldvin.

„Þetta er undir mér komið og þeir styðja mig í öllu sem ég ákveð að gera,“ segir hann.

Trompetinn tekur mestan frítíma Baldvins en hann hefur einnig gaman af fótbolta og er stuðningsmaður Liverpool auk þess að vera áhugamaður um flugvélar. Hann segir jafnvel koma til greina að læra flugmanninn, en þó eigi trompetleikurinn hug hans allan þessa stundina.

Spurður um framtíðina segist hann sjá fyrir sér að fara út til Bandaríkjanna í trompetnám. „Draumurinn er síðan New York-fílharmóníuhljómsveitin,“ segir Baldvin sem stefnir hátt.

Árlegir jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru í gær. Baldvin lék trompetkonsert eftir Giuseppe Tartini og skólakór Kársnesskóla söng nokkur vel valin jólalög. - vsp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.