Innlent

Helguvík skrefi nær

Álver í Helguvík er að komast á beinu brautina á ný með endurnýjuðum samningum Norðuráls við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja í dag og fjárfestingarsamningi við stjórnvöld.

Uppsteypa kerskála hófst í Helguvík í september rétt áður en heimskreppa skall yfir og síðan hefur framhald framkvæmda verið í óvissu. Þrír bankar sem ætluðu að fjármagna verkefnið fóru allir í þrot.

Norðurálsmenn hafa síðan reynt að sannfæra nýja banka um skynsemi þess að halda áfram, meðal annars með því að stefna að 360 þúsund tonna álveri í fjórum áföngum, 40 prósentum stærra en áður var áformað.

Þeir óttast ekki að orku muni skorta, og telur Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, að slík áfangaskipting í fjóra smærri áfanga muni henta orkufyrirtækjunum betur.

Drög liggja fyrir að nýjum fjárfestingarsamningi við stjórnvöld sem ásamt endurnýjuðum orkusamningum hjálpa til við lánsfjárútvegun að mati Norðurálsmanna.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur vonast menn til að geta farið að bretta upp ermar, og segir Guðlaugur Sverrisson stjórnarformaður að samningurinn tryggi sölu á allri orku Hellisheiðarvirkjunar og verkefnið kalli auk þess á Hverahlíðarvirkjun.

Ef áform ganga eftir gætu framkvæmdir í Helguvík farið á fullt á ný um mitt næsta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×