Innlent

Auglýsing Keilis fyrst og fremst ímyndarauglýsing

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Stefanía Katrín Karlsdóttir.
Stefanía Katrín Karlsdóttir.

Stefanía Katrín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri heilsu- og uppeldisskóla Keilis, segir það byggt á misskilningi að auglýsingar um hjúkrunarfræðinám við Keili séu innistæðulausar. Sérstaklega hafi verið tekið fram í umræddri auglýsingu, sem birtist í Morgunblaðinu fyrr í vikunni, að í undirbúningi væri að hefja kennslu í hjúkrunarfræði við skólann.

„Þetta var fyrst og fremst ímyndarauglýsing. Við erum með þetta í undirbúningi, við finnum fyrir þörf og við höfum áhuga. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem er eitt stærsta sjúkrahús landsins, er í samstarfi við okkur með þetta en þar erum við með mjög góðar og öflugar starfsstöðvar. Við erum bara að kanna möguleikana á að fara af stað með hjúkrunarfræði," útskýrði Stefanía.

Athugasemd frá forsvarsmanneskjum hjúkrunarfræðideilda Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri birtist í Morgunblaðinu í morgun þar sem þær kváðu auglýsingu Keilis án innistæðu þar sem stofnunin hefði ekkert leyfi frá menntamálaráðuneytinu til að bjóða upp á kennslu í hjúkrunarfræði.

„Við skulum ekki gleyma því að það er verulega mikill skortur á heilbrigðismenntuðu fólki. Þetta er bara okkar viðleitni til að stuðla að því að fleiri séu menntaðir á þessum skortsviðum," sagði Stefanía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×