Erlent

Tók strætó heim með hnífinn í bakinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Rússneskur rafvirki sem fékk sér hressilega neðan í því með vaktmanni á vinnustað hans að loknum vinnudegi veitti því enga athygli þegar sá síðarnefndi rak hníf á kaf í bak hans.

Það var ekki fyrr en hinn 53 ára gamli Júrí Lyalin var kominn á heimili sitt að eiginkona hans tók eftir handfangi sem stóð út úr bakinu á honum og hringdi þegar á sjúkrabifreið.

Lyalin tók atburðinum með miklu jafnaðargeði og sagði þá félagana hafa setið að drykkju og „hvað gerist svo sem ekki þegar menn eru að drekka?" sagði hann. Yfirvöld líta atvikið þó ekki jafnmildum augum og vinnufélaginn á yfir höfði sér ákæru og hugsanlega þunga refsingu.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að deilur höfðu risið milli drykkjufélaganna með fyrrgreindum afleiðingum. Lyalin tók þó strætisvagn heim með hnífinn í bakinu eins og ekkert hefði í skorist. Læknir sem meðhöndlaði hann sagði það mesta mildi að engin líffæri hefðu orðið fyrir laginu en hnífurinn stakkst einungis í vöðvavef.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×