Innlent

24 innbrot í höfuðborginni frá því á aðfangadag

Sex innbrot voru framin á höfuðborgarsvæðinu í nótt.Brotist var inn í Varmárskóla í Mosfellsbæ og Lauganesskóla í Reykjavík. Þá var brotist inn í fyrirtæki í Hafnarfirði og á heimili í Vatnsendahverfi í Kópavogi. 24 innbrot hafa verið skráð á höfuðborgarsvæðinu frá því á miðnætti á aðfangadag.

Á Ísafirði voru tveir fluttir á slysadeild eftir að hafa ekið bífreið sinni á staur í hálkunni.

Á Selfossi stöðvaði lögreglan bíl í undir miðnætti á gatnamótum Skeiðavegar og Suðurlandsvegar sem reyndist vera fullur af þýfi. Talið er að þýfið komi úr nokkrum innbrotum inn í sumarbústaði í nágrenni Flúða. Fjórir ungir karlmenn voru í bílnum og eru þeir í haldi lögreglu í þágu rannsóknar málsins. Töluverð verðmæti voru í bíl þeirra en lögreglan á Selfossi veit ekki úr hvaða bústöðum þýfið kemur. Hún hvetur því sumarbústaðaeigendur til að huga að bústöðum sínum.

Brotist var inn í iðnaðarhúsnæði við Klettháls í nótt. Þremur vélsleðum var stolið og ekið á brott. Lögregla rakti slóð sleðanna og fann þá skömmu síðar skammt frá iðnaðarhúsnæðinu. Þjófunum virðist hafa snúist hugur og stungið af því þveir voru á bak og burt þegar lögreglan kom að sleðunum. Þeir eru enn ófundnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×