Innlent

Fórnarlamb í Þorlákshafnarárás tregt til að tjá sig

Héraðsdómur Suðurlands fjallar nú um þá kröfu lögreglunnar á Selfossi að pólskur maður og kona skuli áfram sæta varðhaldi vegna gruns um aðild að árás á samlanda þeirra í Þorlákshöfn aðfaranótt sunnudags.

Fimm manns, þrjár konur og tveir karlar frá Póllandi, sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins en í því var fórnarlambið stungið og skorið með lagvopni. Samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurði var árásin gróf og hending ein að fórnarlambið skyldi ekki látast.

Tveimur konum og karli var sleppt úr varðhaldi fyrr í vikunni þar sem ekki var talið að þau gætu haft áhrif á rannsókn málsins. Hins vegar var farið fram á varðhald yfir karli og konu þar sem grunur leikur á að annaðhvort þeirra eða bæði hafi átti aðild að árásinni.

Að sögn Elís Kjartanssonar, lögreglufulltrúa á rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi, hefur fólkið lítið viljað tjá sig um atburðina og þá hefur komið fram mikið misræmi í frásögnum þess. Ofan á þetta bætist að fórnarlambið sjálft er tregt til að tjá sig og það gerir rannsóknina snúnari að sögn Elís. Rannsókn á vettvangi er lokið en kallaður var til réttarmeinafræðingur og menn frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til þess að aðstoða við rannsókn málsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×