Innlent

Þjóðina skortir sterka leiðtoga

Þjóðina skortir sterka leiðtoga. Þetta má lesa út úr nýrri könnun um gildismat Íslendinga, sem Capacent kynnti í morgun.

Könunnin var gerð meðal 1200 Íslendinga og svöruðu rúmlega 600. Þátttakendur voru beðnir um að að velja hugtök sem lýstu í fyrsta lagi persónulegum gildum, í öðru lagi hvernig við mætum núverandi samfélag svo og æskileg samfélagsleg gildi. Könnunin er byggð á aðferðafræði viðskiptaráðgjafans Richards Barretts sem kynnti niðurstöðurnar í Salnum í Kópavogi í morgun. Hann segir áberandi hversu mikla áherslu Íslendingar leggi á fjölskylduna, mun meiri en sést hafi sambærilegum könnunum í öðrum löndum.

En þegar litið sé á hvernig þátttakendur lýsi ríkjandi gildum í samfélaginu geti hann ekki annað en lesið úr gögnunum að lykilvandinn sé fólginn í leiðtogaskorti, bæði í stjórnmálum og viðskiptalífinu þar sem núverandi leiðtogar leggi of mikla áherslu á eigin hagsmuni. Íslendingar vilji sjá meiri ábyrgðartilfinningu hjá leiðtogum sínum, minni áherslu á að mynda yfirstétt og minni spillingu.

Athygli vekur að meðal þeirra hugtaka sem Íslendingar velja til að lýsa samfélaginu nú eru efnishyggja, skammsýni, óvissa um framtíðina og spilling en óskasamfélagið ætti að snúast um ábyrgðartilfinningu, fjölskyldugildi, atvinnutækifæri, fjárhagslegt öryggi og bjartsýni. Samkvæmt Barrett þarf Ísland á sterkari leiðtoga að halda til að feta þann veg.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×