Innlent

Spyr hvort borgin gangi til góðs

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Birna Þórðardóttir.
Birna Þórðardóttir.

„Auðvitað eru göturnar öllum frjálsar, ég hef löngum sagt það. En ef einu fyrirtæki er gert að starfa á ákveðinn máta á það að gilda fyrir alla," segir Birna Þórðardóttir sem rekur Menningarfylgd Birnu og hefur fylgt hópum um götur Reykjavíkur í sex ár í menningartengdum gönguferðum.

Umræðuefnið er Kvöldgöngur úr Kvosinni, gönguferðir sem ýmsar af menningarstofnunum Reykjavíkurborgar standa fyrir á fimmtudagskvöldum í sumar og eru þátttakendum að kostnaðarlausu.

„Eins og við vitum er ekkert ókeypis og því spyr ég hvort þetta séu starfsmenn á vegum þessara opinberu stofnana eða hvort þær kaupi þjónustu annars staða frá sem hlýtur þá að vera niðurgreidd af annarri starfsemi stofnananna til að stunda þetta," segir Birna enn fremur.

Hún segir sína starfsemi leyfisskylda enda þurfi hún leyfi sem ferðaskipuleggjandi til að reka fyrirtæki sitt. Ekki kannist hún við að þær stofnanir borgarinnar sem að göngunum standa hafi slíkt leyfi eða að fjárhagur þeirra sé sundurgreindur með þessa starfsemi í huga. Birna spyr því hvort verið sé að greiða niður samkeppnisstarfsemi.

Eðlilegur hluti starfseminnar

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, segir það alrangt að þær stofnanir sem standa að Kvöldgöngum úr Kvosinni þurfi leyfi ferðaskipuleggjanda til að halda úti göngunum. „Við lítum svo á að þetta sé hluti af starfsemi stofnananna en þeirra hlutverk er meðal annars að miðla og fræða um menningu og sögu borgarinnar og þessar göngur snúa allar að því," segir Svanhildur.

Hún segir göngurnar ekki frábrugðnar því er starfsmenn Listasafns Reykjavíkur veiti leiðsögn um listmuni þar eða útilistaverk borgarinnar. „Þetta eru ekki ferðaskipuleggjendur í þeim skilningi, það er óralangur vegur frá því. Þarna er ekki verið að skipuleggja neina tilflutninga fólks heldur gengur það bara á milli. Eina ferðalagið yfir einhvern lengri veg eru siglingarnar um Sundin og um þær er séð af fagaðilum sem hafa sín leyfi. Það er eina atriðið sem er rukkað fyrir í þessum göngum og þar greiða menn bara ferjutollinn," segir Svanhildur og bætir því við að enginn eðlismunur sé á þessari miðlun og því sem þessar menningarstofnanir sinni á hverjum einasta degi innan eða utan sinna veggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×