Innlent

Ekki verði unnið með verðlaunatillögu meðan framtíð flugvallar er óviss

MYND/GVA

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans og fyrrverandi borgarstjóri, leggur fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að ekki verði unnið frekar að skipulagsvinnu þar sem verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina er höfð að leiðarljósi á meðan óvissa ríkir um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Í greinargerð með tillögunni vísar Ólafur til þess að hann hafi áður lagt fram tillögu um að aftur verði kosið um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar þar sem þátttaka hafi verið lítil í kosningum um málið árið 2001. Segir Ólafur að það sé með öllu óviðunandi að svo lítill hluti borgarbúa ráði för í þessu þýðingarmikla máli fyrir Reykvíkinga og alla landsmenn.

„Þáttur borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í flugvallarmálinu vekur sérstaka athygli, en árið 2001 lýstu 4 af 7 þáverandi borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins yfir stuðningi við veru flugvallarins í Vatnsmýri. Það voru auk tillöguflytjanda, sem sagði sig úr flokknum í lok ársins 2001, þau Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Jóna Gróa Sigurðardóttir og Inga Jóna Þórðardóttir, sem jafnframt var oddviti borgarstjórnarflokksins. Inga Jóna og fleiri sjálfstæðismenn hvöttu hins vegar borgarbúa til að sniðganga flugvallarkosninguna með afdrifaríkum afleiðingum, því fullyrða má að annars hefðu flugvallarsinnar orðið ofan á í atkvæðagreiðslunni. Þá, eins og nú, vildi meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni," segir Ólafur í tillögunni.

Fylgjandi skipulagsvinnu í austurhluta Vatnsmýrarinnar

Hann segir þó að hann sé fylgjandi áframhaldandi skipulagsvinnu í austurhluta Vastmýrarinnar, þar sem Háskólinn í Reykjavík rís. Áfram þurfi að samræma og samþætta skipulag austan flugvallarins þannig að góðar tengingar í skipulagi og samgöngum séu á milli Háskólans í Reykjavík, Valssvæðisins og samgöngumiðstöðvar norðan Loftleiðahótelsins.

„Skipulagsvinnan í framtíðinni verður að taka tillit til flugvallar og aðkomu að honum og samgöngumiðstöð í tengslum við flugvöllinn. Brýnt er að ekki verði unnið frekar á þessu kjörtímabili að skipulagi Vatnsmýrar vestan flugvallar og í Skerjafirði samkvæmt verðlaunatillögunni. Þess í stað einbeiti borgaryfirvöld sér að uppbyggingu austan flugvallarins. Í aðsteðjandi kreppu er það skynsamlegra en að geysast fram með uppbyggingu annars staðar í Vatnsmýrinni, ef frá er skilin uppbygging á lóð Háskóla Íslands.

Fráleitt er að undirbúa 4-5 hæða blokkarbyggð í Skerjafirði, sem myndi skaða útivistarsvæðið meðfram ströndinni og varpa skugga inn á Vatnsmýrina. Að framansögðu er því lagt til að ekki verði unnið frekar að skipulagsvinnu, þar sem verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina er höfð að leiðarljósi," segir Ólafur enn fremur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×