Innlent

Aðgengi almennings að Hallargarðinum ekki skert

Frá stofnun Hollvina Hallargarðsins í dag.
Frá stofnun Hollvina Hallargarðsins í dag. MYND/Stöð 2

Hollvinir Hallargarðsins, sem héldu stofnfund sinn í dag, vilja tryggja að almenningur hafi áfram fullan aðgang að Hallargarðinum í Reykjavík. Talsmaður tilvonandi kaupenda að Fríkirkjuvegi 11 segir ekki rétt að aðgengi almennings að garðinum, sem umlykur húsið, verði skert.

Borgarráð frestaði í síðustu viku að afgreiða kaupsamning vegna Fríkirkjuvegs ellefu. Rúmt ár er síðan að ákveðið var að selja Novator húsið að Fríkirkjuvegi 11 en Novator er fjárfestingarfélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Salan var þó með þeim skilyrðum að gengið yrði að kröfum sem lúta að aðgengi að húsinu, eða svokallaðri viðhafnarinnkeyrslu, og öðrum breytingum. Viðræður hafa staðið yfir á milli borgarinnar og tilvonandi kaupenda um það hvernig að innkeyrslunni verði staðið.

Í dag kom hópur fólks saman í Hallargarðinum stofnaði þar samtökin Hollvinir Hallargarðsins. Þeir telja að viðhafnarinnkeyrslan svo og heimild tilvonandi eigenda til að loka garðinum þegar þjóðhöfðingjar koma í húsið skerði aðgengi almennings að garðinum. Hópurinn vill tryggja að allir hafi áfram fullan aðgang að garðinum.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Novator, segir að aðgangur almennings að garðinum verði ekki skertur með nýjum eigendum. Húsið hafi verið keypt án þess aðkeyrslu að því en verið sé að ganga frá samkomulagi um hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×