Lífið

Kannabisræktun í bílskúr Ómars

Komst fyrir tilviljun að því að bílskúr hans hýsti kannabisræktun.
Komst fyrir tilviljun að því að bílskúr hans hýsti kannabisræktun.

„Þetta var fyndið. Ég á sem sagt íbúð og bílskúr sem ég keypti og hafði hugsað sem eftirlaunasjóð. Leigði þetta út hvort í sínu lagi," segir Ómar R. Valdimarsson ræðismaður.

Ómar komst óvænt á snoðir um að bílskúr hans við Hrísateig var notaður undir kannabisræktun. Leigjandi hans var búinn að koma þar fyrir plöntum og þar til gerðum lömpum. En áfram með söguna.

„Já, ég ætlaði sem sagt að borga íbúðina niður með því að leigja hana. En svo kom á daginn að verðbólgan var á góðri leið með að éta upp eignarhlutann þannig að ég setti mig í samband við Hannes Steinþórsson, fasteignasala þeirra ríku og frægu - að eigin sögn."

Þegar svo kom að því að sýna íbúðina og bílskúrinn reyndist ekkert mál að koma því við hvað íbúðina snerti.

„En sá sem var með bílskúrinn tók dræmlega í það, sagði að félagi sinn væri með búslóð sína í geymslu í skúrnum og hann hefði tekið með sér bílskúrsopnarann út á land."

Ómari þótti þetta sérkennilegt en ákvað að hringja í Neyðarvaktina til að fá skúrinn opnaðan. Þegar hann kom að bílskúrnum var þar ljós og skuggar á ferli innan dyra. Ómar bankaði upp á.

„Þá var minn maður í óða önn að troða kannabisplöntum í plastpoka. Sagði að sig hafi vantað pening en ég sagðist ætla að hringja í lögguna - núna. „Já," sagði hann þá greyið og beið þess sem verða vildi. Hann hafði leigt bílskúrinn í einhverja tvo mánuði þannig að þetta var nú ekki mikill gróður. Ég hugsa að hann fari í eitthvað uppbyggilegra úr þessu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.