Innlent

Ákærð vegna mótmæla við Hellisheiðarvirkjun

Frá aðgerðum Saving Iceland við Hellisheiðarvirkjun í fyrra.
Frá aðgerðum Saving Iceland við Hellisheiðarvirkjun í fyrra. MYND/365

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins á hendur níu einstaklingum tengdum Saving Iceland verður í Héraðsdómi Suðurlands á mánudag.

Fólkinu er gefið að sök að hafa lokað veginum að Hellisheiðarvirkjun í fyrrasumar og hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að opna veginn aftur. Um er að ræða fimm manns sem búsettir eru á Íslandi, tvo Dani, einn Breta og einn Belga.

Fólkið hlekkjaði sig meðal annars við bíla en með aðgerðum sínum vildi það mótmæla stækkun virkjunarinnar, óheiðarlegum viðskiptaháttum Orkuveitu Reykjavíkur og sölu á rafmagni til álvera, eins og sagði í tilkynningu Saving Iceland.

Þá er einum í hópnum gefið að sök að hafa klifrað upp í byggingarkrana við virkjunina í heimildarleysi. Enn fremur gerir Orkuveita Reykjavíkur kröfu um skaðabætur upp á nærri 750 þúsund krónur vegna aðgerða hópsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×