Innlent

Ósammála Stefáni um að færa fjarskiptamiðstöðina

Formenn svæðisdeilda Landssambands lögreglumanna utan höfuðborgarsvæðisins hafna þeim hugmyndum Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra verði færð til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í yfirlýsingu til fjölmiðla segja formennirnir að frá því að svokallað TETRA-fjarskiptakerfi hafi verið innleitt hafi fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra gegnt því hlutverki að vera samhæfingaraðili í aðgerðum lögreglu. Aðgengi að þjónustu og upplýsingum sé að hafa í gegnum fjarskipti við fjarskiptamiðstöðina í Skógarhlíðinni þar sem starfi menn sem eru sérhæfðir í miðlun upplýsinga úr upplýsingakerfum lögreglu.

„Sú uppbygging sem verið hefur í þessum málum er á réttri leið og því væri það mikil afturför að fara í flutning á þessari starfsemi með þeim hætti sem Stefán sér fyrir sér.Sannarlega getur menn greint á um hvaða starfsemi eigi að vera í umsjá embættis ríkislögreglustjóra en þessi samhæfingarstarfsemi á heima þar, það er ekki spurning," segja formennirnir.

Þjónusta fjarskiptamiðstöðvar við lögreglumenn á vettvangi sé nauðsynlegur þáttur í starfsemi embætta á landsbyggðinni hvað varðar aðgengi að upplýsingum úr lögreglukerfum sem sé lykilþáttur í skilvirkri löggæslu. „Við erum sannfærð um að starfsemi fjarskiptamiðstöðvar sem þjónustar allt landið á heima hjá embætti ríkislögreglustjóra og að þar verði haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

Að þar starfi fagmenn sem miðla verkefnum og upplýsingum til samstarfsmanna sinna um land allt og samhæfa aðgerðir þegar þess þarf. Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, eins og hún er starfrækt í dag, er einn af lykilþáttum í þeirri þróun að efla lögregluna í heild og skapa þannig meira öryggi í samfélaginu," segir í yfirlýsingunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×