Innlent

Geir slíti stjórnarsamstarfinu frekar en að láta undan hótunum

Geir Haarde kynnti málefnastarf fyrir landsfundinn á blaðamannafundi í Valhöll.
Geir Haarde kynnti málefnastarf fyrir landsfundinn á blaðamannafundi í Valhöll.
Sjálfstæðismenn á Ísafirði hvetja Geir H. Haarde formann Sjálfstæðisflokksins til að bregðast við hótunum ráðherra samstarfsflokksins í ríkisstjórn og boða frekar til alþingiskosninga, en að láta undan dulbúnum hótunum, þar sem reynt er að hafa áhrif á væntanlegar ályktanir næsta landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í ályktun Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðabæ.

Ísfirskir sjálfstæðismenn segjast styðja þá ákvörðun miðstjórnar flokksins að flýta landsfundi um hálft ár. Full þörf sé á að endurskoða stefnumál varðandi efnahagslífið, gjaldeyrismál og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, vegna gjörbreyttra aðstæðna í þjóðfélaginu.

Fulltrúaráðið segist vera sammála því að Evrópumálin verði skoðuð sérstaklega með starfrækslu sérstakrar Evrópunefndar en leggi um leið þunga áherslu á að allir möguleikar í erlendu samstarfi verði skoðaðir, ekki einungis möguleg innganga í Evrópusambandið. Allir möguleikar í myntsamstarfi eða einhliða upptöku myntar verði einnig skoðaðir ofan í kjölinn. Fulltrúaráðið furðar sig á því að enginn landsbyggðarmaður sé í hópi 14 verkstjóra málefnaflokka Evrópunefndarinnar.

Þá leggja sjálfstæðismenn á Ísafirði áherslu á að hagsmunir þjóðarinnar séu samofnir hagsmunum sjávarútvegarins og ráðstöfunarréttur þjóðarinnar yfir auðlindum sínum hljóti að ráða því hvort til álita komi að Ísland fari í aðildarviðræður við Evrópusambandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×