Erlent

Barist verði gegn sjóránum með öllum tiltækum ráðum

Bandaríkjamenn og Frakkar hafa lagt tillögu fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þess efnis að þjóðum verði heimilt að handtaka sjóræningja innan landhelgi Sómalíu.

Tillagan gerir ráð fyrir að þjóðum verði heimilt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að berjast gegn sjóránum á hafinu út af ströndum Sómalíu. Jafnframt að þær þjóðir sem hafi í hyggju að berjast gegn sjóræningjunum eigi að hafa samráð um aðgerðir við stjórnvöld í Sómalíu.

Sjórán eru mikið vandamál undan ströndum Sómalíu en hið síðasta var rán á spænskum túnfiskbát í síðustu viku. 26 sjómenn voru um borð í bátnum og voru þeir látnir lausir úr haldi sjóræningjanna eftir að rúmlega 80 milljónir króna höfðu verið greiddar í lausnargjald.

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum segir að tími sé til kominn að Öryggisráðið bregðist við þessu vandamáli. Það sem flækir stöðuna hinsvegar er að Sómalía hefur ekki haft eiginlega ríkisstjórn síðustu 17 árin, heldur bráðabirgðastjórnir sem eru mjög veikar innanlands. Því hafa sjóræningjarnir komist upp með glæpi sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×