Innlent

Hitametin falla hvert af öðru

sev skrifar
„Hitametin eru að falla í stríðum straumum," segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur. „Landsmetið gæti allt eins fallið. Það vantar bara 1,2 gráður upp á það."

Hiti hefur mestur mælst 29,3 gráður í dag á Þingvöllum. Þar hefur hiti ekki farið upp fyrir 27,1 stig áður svo vitað sé. Methiti mældist einnig á Hellu 27,6 gráður, Hveravöllum 24,6 gráður, í Vestmannaeyjum 21,6 og Hjarðarlandi í Biskupstungum, þar sem hitinn komst í 28,8 gráður.

Þann fyrirvara ber þó að hafa að tölurnar eru opinberar fyrr en veðurstofan hefur staðfest þær upp úr sex.

Hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi var 30,5 gráður á Teigarhorni þann 22. júní árið 1939.

Vísi hefur borist fjöldi ábendinga um að mælar sýni meira en það sem opinberar hitatölur segja til um. Þannig sýndi veðurstöð í Grímsnesi 31,7 gráður upp úr þrjú í dag, og hitamælir á Egilshöll í Grafarvogi sýndi 34 gráður laust fyrir fimm. Sigurður segir enga ástæðu til að draga þær tölur í efa. Mælarnir mæli rétt. Hinsvegar gildi reglur um opinbera mæla. Þeir megi ekki vera utan á húsum, þurfi að vera í tveggja metra hæð, og yfir hlutlausu landi sem ekki dregur í sig hita. Þetta geti haft áhrif á muninn. „Það breytir því ekki að hitinn er sá sem hann er á mælinum," segir Sigurður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×