Innlent

Skattalækkun fyrir meirihluta launþega

Mikil hækkun persónuafsláttar, upp í rúmlega 42 þúsund krónur á mánuði, þýðir skattalækkun fyrir meginþorra launþega nú um áramótin, og það umtalsverða fyrir þá tekjulægstu.

Persónuafslátturinn hækkar óvenju mikið að þessu sinni, eða um átta þúsund krónur, úr 34 þúsund krónum upp í 42.205 krónur. Þessi mikla hækkun stafar af því ríkisstjórnin féllst á við gerð síðustu kjarasamninga að láta persónuafsláttinn fylgja verðvísitölu og því til viðbótar að hækka hann um tvö þúsund krónur.

Það skýrist hins vegar ekki fyrr en á morgun hver skattprósenta næsta árs verður í staðgreiðslunni en hún er 35,72 prósent á þessu ári. Líklegt má telja að hún verði í kringum 37,15 prósent en hækkunin stafar annars vegar af 1,25 prósentustiga hækkun tekjuskatts og meðaltalshækkun útsvars, sem líklega verður um 0,2 prósentstig.

Þegar saman fer um 1,4 prósentustiga hækkun skattprósentu og nærri átta þúsund króna hækkun persónuafsláttar verður útkoman skattalækkun fyrir meginþorra launþega, og því meiri sem tekjurnar eru lægri. Til að lenda í skattahækkun þarf fólk að vera með hátt í 600 þúsund króna mánaðartekjur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×