Innlent

Farbannsúrskurður yfir Rúmena felldur úr gildi

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi farbannsúrskurð yfir Rúmena sem grunaður er um tengjast ætluðum fjársvikum hér á landi.

Hann var handtekinn í kjölfar þess að tveir samlandar hans, karl og kona, voru gripnir á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins með 60 greiðslukort í fórum sínum sem talið er ætlunin hafi verið að nota hér á landi til að svíkja út fé.

Samlandar hans eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins og var hann handtekinn þegar hann var að grennslast fyrir um fólkið. Kvaðst hann hafa gert það að beiðni móður konunnar sem situr í gæsluvarðhaldi.

Tvímenningarnir neita að þekkja manninn og á þessum grundvelli taldi Hæstiréttur ekki nægilegan grundvöll fyrir farbanni til 27. júní eins og héraðsdómur hafði fallist á. Var farbannsúrskurðurinn því felldur úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×