Innlent

Kaupmenn takmarki hækkanir á vörum

Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir gríðarlegum áhyggjum yfir stöðu efnahagsmála vegna mikillar verðbólgu og himinhárra vaxta, sem eru að sliga mörg íslensk heimili.

Skorar stjórnin á alla verslunareigendur og stórkaupmenn að takmarka hækkanir á vörum sínum eins og kostur er og leggja þannig sitt af mörkum við að vinna bug á þeirri gríðarlegu verðbólgu sem sé í landinu.

Í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu segir enn fremur að gengið hafi verið frá hófstilltum kjarasamningum til að stuðla að stöðugleika en það sé morgunljóst að fátt geti komið í veg fyrir að samningunum verði sagt upp í febrúar þegar endurskoðun á þeim fer fram. „Það er einnig ljóst að íslenskt verkafólk mun ekki sætta sig við að gera hófstillta kjarasamninga slag í slag til að tryggja hér stöðugleika þegar lítið sem ekkert kemur frá ríkisstjórn Íslands í þeim efnum," segir stjórn Verkalýðsfélags Akraness enn fremur.

Auk þess að skora á kaupmenn hvetur verkalýðsfélagið ríkisstjórnina til þess að lækka álögur á eldsneyti vegna mikillar hækkunar á heimsmarkaðsverði. Slíkt muni klárlega hjálpa íslenskum neytendum og slái á verðbólguna. Einnig skorar stjórn félagsins á stjórnvöld að grípa þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×