Lífið

Lúxusbílar til sölu á spottprís

Birgir Kristinsson með dýrindis Land Rover Discovery á viðráðanlegu verði.
Birgir Kristinsson með dýrindis Land Rover Discovery á viðráðanlegu verði. Fréttablaðið/stefán

Tómstundahúsið er eini staðurinn á landinu þar sem lúxusbílar seljast í dag, enda eru þeir á spottprís. „Range Rover er alveg uppseldur hjá okkur. Hann kostaði 7.000 krónur og var í stærðinni 1/18. Ég kaupi ekki inn nýjar birgðir á meðan gengið er svona. Maður vonar bara að þetta breytist,“ segir Birgir Kristinsson í Tómstundahúsinu. Hann býður þó enn þá upp á ýmsar tegundir góðærisbíla. „Ég er með Hummer H3 á 2.600 kr. og BMW M3 og M6 á 4.000 og 6.200 krónur.“

Smábílarnir eru úr járni og kallast „diecast“ á ensku – „Við höfum kallað þetta safnarabíla eða járnbíla, því skelin úr járni. Það er mjög blandaður hópur sem kaupir þessa bíla, frá fimm ára og upp úr. Margir eru að safna eftir árgerðum eða tegundum.“

Birgir segir að gjaldþrota milljarðamæringar hafi ekki komið til að minnast góðu daganna með dvergútgáfu – „að minnsta kosti enginn af þessum frægustu. Þeir hafa örugglega enn þá efni á svona bílum í fullri stærð.“

Birgir er af þriðju kynslóð Tómstundahússmanna. „Afi setti verslunina á laggirnar árið 1953 og ég er eiginlega fæddur inn í þetta. Við höfum verið í Nethylnum í ellefu ár og þetta gengur ágætlega. Fjarstýrðu bílarnir eru alltaf það vinsælasta sem við bjóðum upp á, enda eru starfandi klúbbar sem tengjast þeim.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.