Innlent

Gæsluvarðhaldi yfir Frakka breytt í farbann

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir frönskum karlmanni sem handtekinn var í síðustu viku hér á landi að beiðni franskra yfirvalda.

Í stað gæsluvarðhalds til 3. júlí skal hann sæta farbanni í jafnlangan tíma. Eins og Vísir greindi frá var maðurinn gripinn á kaffihúsinu Kofa Tómasar frænda fyrir viku en hann er grunaður um að hafa dregið sér yfir 22 milljónir króna frá fyrirtæki í París sem hann starfaði fyrir. Hafa frönsk stjórnvöld farið fram á framsal mannsins og er málið nú til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum.

Í rökstuðningi Hæstaréttar segir að lögregla í Frakklandi hafi hafið rannsókn málsins eftir að maðurinn yfirgaf landið og ekki hafi verið sýnt fram á að þörf sé á gæsluvarðhaldi til að tryggja návist mannsins meðan fjallað er um framsalskröfu Frakka. Maðurinn hefur verið búsettur hér í um tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×