Innlent

Kartöflur betri fyrir loftslagið en hrísgrjón

Borðaðu kartöflur í stað hrísgrjóna ef þú vilt vinna gegn loftslagsbreytingum. Þetta ráð kemur frá Moniku Pearson hjá sænsku matvælastofnuninni en hún hélt fyrirlestur um málið á námstefnu í Växjö í dag.

Matvælastofnunin hefur rannsakað umhverfis- og loftslagsáhrif ýmissa matvæla frá mörgum mismunandi sjónarhornum eins og segir í frétt frá Norðurlandaráði. Þar kemur einnig fram að framleiðsla kartaflna losi minna magn koltvísýrings en framleiðsla hrísgrjóna.

Ýmsar aðrargrænmetistegundir hafa lítil áhrif á loftslagið, þar á meðal ertur, baunir og linsubaunir, meðal annars vegna þess hve lengi þær geymast. Þá segir í fréttinni að hægt sé að vinna loftslaginu gagn á margan annan hátt við matvælaframleiðslu , til dæmis er matvæla- og drykkjavöruiðnaðurinn valdur að losun um 30 prósent gróðurhúsalofttegunda innan ESB.

„Ein leið til að minnka loftslagsáhrif matvælaframleiðslu er að loftslagsmerkja vörur. Til eru fjölmargar merkingar, bæði fyrir umhverfið og loftslagið. Maria Olofsdottir frá Öresund Food Network bendir þó á að enn eru fjölmörg óvissuatriði hvað varðar loftslagsmerkingar á matvælum. Það er m.a. erfitt fyrir neytendur að fá yfirsýn yfir allar merkingar þar sem þær eru mjög ólíkar. Samkvæmt henni eru einnig oft viðskiptalegar forsendur fyrir merkingunum, ekki aðeins umhyggja fyrir umhverfi- eða loftslagi.

Helén Willams sérfræðingur frá háskólanum í Karlstad kom með ráð sem allir neytendur geta fylgt. Hún minnti á að hægt væri að vernda umhverfið með því að velja þær umbúðir sem notaðar eru fyrir matvæli. Það hefur t.d. komið í ljós að lítrapakkning af mjólk er umhverfisvænni en eins og hálfs lítra pakkning," segir enn fremur í frétt Norðurlandaráðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×