Innlent

Þorsteinn þvertekur fyrir brask og óreiðu

Þorsteinn Stephensen, stofnandi og eigandi Hr. Örlygs sem rekur Iceland Airwaves hátíðina.
Þorsteinn Stephensen, stofnandi og eigandi Hr. Örlygs sem rekur Iceland Airwaves hátíðina.

Þorsteinn Stephensen, eigandi Hr. Örlygs, umsjónarfyrirtækis Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar, mun boða til blaðamannafundar í næstu viku samkvæmt spjalli sem blaðamaður Vísis átti við Þorstein. Er ætlun Þorsteins að fara yfir alla þá misvísandi umræðu sem ríkt hefur undanfarna daga um starfsemi hátíðarinnar en umfram allt er tilgangur fundarins að kynna Airwaves í ár.

Í kjölfarið þess að nokkrir starfsmenn Airwaves hafa yfirgefið fyrirtækið hefur sprottið upp mikil umræða um allt rekstrarform hátíðarinnar og sýnist sitt hverjum. Þorsteinn segir að margar ásakanir á hendur hans og Hr. Örlygs séu algjörlega fráleitar en vissulega sé það satt að hátíðin eigi í fjárhagskröggum. Þau vandræði séu hins vegar ekki til komin vegna brasks eða nokkurs konar óreiðu í bókhaldinu. Ástæðuna má til dæmis rekja til þess að engin verkefni hafa verið hjá Hr. Örlygi frá síðastliðnum október en vanalega hafi fyrirtækið haft á sínum snærum um tuttugu verkefni á ári hverju.

Þorsteinn er staddur erlendis um þessar mundir en fljótlega eftir að hann kemur heim verður boðað til blaðamannafundar þar sem Þorsteinn hyggst koma málum hátíðarinnar á hreint. Á fundinum verður einnig tilkynnt um fyrstu listamennina sem staðfest hafa komu sína á Iceland Airwaves í ár en hátíðin fer fram í miðbæ Reykjavíkur í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×