Innlent

Sérsveitin handtók átta í Keflavík

Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kvödd til. Myndin tengist fréttinni ekki beint
Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kvödd til. Myndin tengist fréttinni ekki beint

Um klukkan sex í morgun var tilkynnt um liggjandi mann fyrir utan hús í Keflavík. Reyndist hann vera öklabrotinn og með töluverða áverka í andliti. Maðurinn hafði verið gestkomandi í húsi þar skammt frá. Var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild í Reykjavík.

Vegna alvarleika málsins fjölmenntu lögreglumenn og réðust til inngöngu í húsið en þar stóð yfir samkvæmi. Lögreglan á Suðurnesjum þáði aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra. Samtals voru átta aðilar handteknir vegna málsins og voru þeir yfirheyrðir í dag.

Um klukkan 12:00 sáu lögreglumenn þar sem ökumaður bifreiðar ók viðstöðulaust inn á gatnamót í veg fyrir aðra bifreið. Lentu svo þessar bifreiðar saman.

Tjónvaldur reyndi svo að komast undan en lögregla stöðvaði för hans skömmu síðar. Reyndist hann réttindalaus.

Um klukkan 14:00 var tilkynnt um innbrot í hús í Njarðvík. Lögreglan fór á vettvang og voru þá tveir menn í íbúðinni sem eru grunaðir um innbrotið. Voru þeir handteknir og vistaðir í fangageymslu.

Einn ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit fundust tvö grömm af meintu afmetamíni. Ökumaðurinn var látin laus eftir yfirheyrslu.

Einn ökumaður bifreiðar var stöðvaður á Reykjanesbraut vegna hraðaksturs, var hann einnig grunaður um ölvun við akstur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á suðurnesjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×