Lífið

Slökkviliðið fækkar fötum

Slökkviliðsmenn prýða myndir fyrir mánuðina tólf. Það er bráðatæknirinn Sveinbjörn Berentsson sem tók myndirnar í dagatalið.
Slökkviliðsmenn prýða myndir fyrir mánuðina tólf. Það er bráðatæknirinn Sveinbjörn Berentsson sem tók myndirnar í dagatalið.
Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu útbjuggu dagatal með myndum af fjórtán fáklæddum slökkviliðsmönnum og selja í fjáröflunarskyni.

„Við erum slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu sem förum þessa fjáröflunarleið í stað þess að fara í fyrirtæki að biðja um peninga,“ segir Kristmundur Carter slökkviliðsmaður. Hann er einn þeirra fjórtán slökkviliðsmanna sem prýða dagatal slökkviliðsmanna. „Við gerðum þetta í fyrsta skipti fyrir tveimur árum og það tókst afbragðsvel.“

Slökkviliðsmennirnir eru að afla fjár til þess að fara á heimsleika lögreglu- og slökkviliðsmanna, sem verða haldnir í Vancouver í Kanada í júlí á næsta ári. Þangað fara 32 slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, auk lögreglumanna. „Þar er keppt í 64 keppnisgreinum, bæði greinum sem tengjast slökkviþættinum og líka í íþróttum,“ segir Kristmundur.

Slökkviliðsmennirnir létu prenta þrjú þúsund eintök af dagatalinu, og Kristmundur segir að vel hafi gengið að selja það. „Það hefur gengið rosalega vel og dömurnar taka vel í þetta. Við erum aðallega að selja þetta í Smáranum og á bás í Kringlunni, frá fjögur til tíu fram að jólum. Við erum sprækir og otum þessu svolítið að fólki.“

thorunn@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.