Innlent

Landsvirkjun hyggst ekki virkja Dettifoss

Landsvirkjun segist ekki hafa þá stefnu að virkja Dettifoss en styrkir engu að síður rannsóknarverkefni í ár um hóflega nýtingu Jökulsár á Fjöllum.

Sigrún Helgadóttir vekur athygli á því í nýútkominni bók sinni um Jökulsárgljúfur að Landsvirkjun kosti nú rannsókn á mögulegri virkjun Jökulsár, en þar eru Dettifoss og fossaröðin í kringum hann langorkumesti hluti fljótsins.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að virkjun Jökulsár sé ekki á dagskrá fyrirtækisins og hafi ekki verið undanfarin hálfan annan áratug. Hann vísar hins vegar á stjórn Orkurannsóknarsjóðs Landsvirkjunar að svara fyrir styrkveitinguna, enda sé sjóðsstjórnin sjálfstæð. Styrkurinn, upp á 1400 þúsund krónur, er veittur til að kanna hóflega nýtingu Jökulsár á Fjöllum til orkuframleiðslu.

Sveinbjörn Björnsson, formaður stjórnar sjóðsins, segir sjálfsagt að afla gagna með því að rannsaka svæði og kynnast þeim hugmyndum sem menn hafa um virkjanakosti til að hægt sé að bera þær saman við aðra kosti. Það sé einmitt í anda rammáætlunar.

Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur, stýrir verkefninu og segir að verið sé að rannsaka hvort unnt sé að nýta eitthvað af hinu gríðarmikla vatnsafli Jökulsár án þess að menn verði varir við mannvirki eða breytingu á vatnsrennsli í ánni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×