Innlent

Hjalti fer fyrir ísbjarnastarfshópi

Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun, verður formaður starfshóps sem umhverfisráðherra hefur skipað og á að vinna tillögur vegna hugsanlegrar landtöku hvítabjarna hér á landi.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag er hópurinn skipaður eftir að tveir hvítabirnir komu hingað til lands á tveggja vikna tímabili, síðari í fyrradag. Starfshópur ráðherra á við vinnu sína að taka mið af reynslunni í þessi tvö skipti og viðbrögðum við komu bjarnanna.

Enn fremur mun hópurinn leita sem víðast eftir reynslu og þekkingu annarra á þessu sviði og hefur Carsten Gröndahl, yfirdýralæknir dýragarðsins í Kaupmannahöfn, samþykkt að vera starfshópnum til ráðgjafar. Aðrir sem skipa hópinn eru dr. Guðmundur A. Guðmundsson, dýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir fyrir Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi, og Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. september.

Þá segir í tilkynningu umhverfisráðuneytisins að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi farið í eftirlitsflug um Hornstrandir í dag til að kanna hvort hvítabirnir finnist á svæðinu. Eftirlitið fer fram í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun og Jón Björnsson, starfsmaður stofnunarinnar, var með í för við eftirlitsflugið í dag. Landhelgisgæslan mun leita víðar á næstu dögum auk þess sem hefðbundnu ískönnunarflugi á Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar verður haldið áfram.

Umhverfisstofnun vinnur nú að því fyrir umhverfisráðuneytið að taka saman kostnað sem til féll vegna tilraunar við að bjarga hvítabirninum í Skagafirði í gær. Vonast er til að þeirri vinnu ljúki í næstu viku eftir því sem segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×