Innlent

Engin fordæmi fyrir afskiptum af skipun fulltrúa í nefndir

Ólíklegt þykir að borgarráð hafni brottrekstri Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur úr skipulagsráði á morgun. Engin fordæmi eru fyrir því að flokkarnir skipti sér af skipun fulltrúa í nefndir og ráð - eftir því sem best er vitað. Fundi skipulagsráðs í dag var frestað um viku og hin umdeilda tillaga um nýjan Listaháskóla verður því ekki kynnt fyrir ráðinu fyrr en eftir helgi.

Þeirri ákvörðun Ólafs F. Magnússonar að víkja Ólöfu fyrirvaralaust úr skipulagsráði var ekki tekið þegjandi og hljóðalaust. Lögspekingar hafa jafnvel gert að því skóna að hún geti sótt skaðabætur til borgarinnar vegna þessa. Það er þó háð því að ekki séu málefnalegar ástæður fyrir brottrekstrinum eða að ekki sé einhugur um málið í borgarráði. Ráðið mun væntanlega taka afstöðu til brottvikningarinnar á fundi sínum á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 úr borgarkerfinu muna elstu starfsmenn þar ekki til þess að einn flokkur hafi lagst gegn því að annar flokkur skipti um fulltrúa sinn í ráði eða nefnd. Mun það einkum vera til að tryggja að meirihlutinn valti ekki yfir minnihlutann með því að hafa áhrif á hvaða minnihlutafulltrúar komast að í nefndir.

Þær upplýsingar fengust hjá borginni að fundi skipulagsráðs, sem halda átti í dag, hefði verið frestað vegna flutninga skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar en sviðið undirbýr gögn fyrir fundi skipulagsráðs.

Þetta er í annað sinn sem fundi ráðsins er frestað. Í síðustu viku stóð til að halda fund en honum var frestað og að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í skipulagsráði, var þá einnig borið við flutningum skipulags- og byggingarsviðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×