Innlent

Háskólanemar fordæma aðgerðaleysi HÍ í Hannesarmáli

Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Kvikmyndafræðinemar við Háskóla Íslands hafa sent frá sér harðorða tilkynningu vegna máls Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors. Hannes var á dögunum dæmdur í Hæstarétti fyrir brot á höfundarrétti og fordæma nemarnir það sem þau kalla aðgerðarleysi Háskólans í málinu.

„Við lýsum yfir furðu okkar á framgöngu á Háskólaráðs og Siðanefndar Háskóla Íslands í máli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar," segir í yfirlýsingu frá stjórn Rýnisins, félags kvikmyndafræðinema. „Við fordæmum það aðgerðarleysi sem ríkt hefur frá því að upp komst um misferli hans við ritun bókarinnar um Halldór Laxness. Við álítum áminningu rektors ekki nægilega refsingu."

Nemarnir segjast vilja sjá aðgerðir í samræmi við þær sem stúdentar eru „miskunnarlaust beittir komi slíkt upp í vinnubrögðum þeirra." Þeir benda á að í siðareglum H.Í. sé kveðið á um að kennarar, sérfræðingar og nemendur setji ekki fram hugverk annarra sem sín eigin. „Þegar þeir nýta sér hugverk annarra geta þeir ávallt heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð."

„Við bendum einnig á að í 4. málsgrein 53. gr. Reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 segir að stúdentum sé ,,...algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.""

„Einnig kemur fram á sama stað hvaða viðurlögum rektor geti beitt komist upp um ritstuld nemenda: „Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg..."

„Kennarar við Háskólann eru fyrirmyndir okkar og leiðbeinendur. Við lítum á brot þeirra í starfi mjög alvarlegum augum. Við fordæmum það að prófessor við skólann skuli geta haldið áfram störfum eftir að hafa gerst sekur um ritstuld og verið dæmdur fyrir af Hæstarétti. Þetta rýrir trúverðugleika allra þeirra sem kenna við Háskólann og grefur undan þeirri virðingu sem nemendur bera fyrir kennurum sínum"

Undir yfirlýsinguna rita:

Bjarki Þór Jónsson, formaður

Helga Þórey Jónsdóttir, varaformaður

Hrafnkell Tryggvason, gjaldkeri

Lísa Margrét Kristjánsdóttir, ritari

María Ágústsdóttir, aðstoðarmaður/meðstjórnandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×