Innlent

Segist heppinn að vera á lífi

Öryggisvörður sem varð fyrir lífshættulegri árás í 10-11 við Austurstræti segist heppinn að vera á lífi. Hann segir lækna hafa unnið kraftaverk.

Óttar Ómarsson starfar sem öryggisvörður hjá Öryggisgæslunni. Hann var á vakt í 10-11 í Austurstræti aðfararnótt 6. apríl þegar ráðist var hann með fólskulegum hætti. Árásarmaðurinn kom inn í verslunina í annarlegu ástandi og hafði sig mikið í frammi. Óttar bað hann vinsamlegast um að yfirgefa búðina þegar hann gerir sig líklegan til að ráðast á hann. Óttar, ásamt fleiri öryggisvörðum, yfirbuga manninn sem er fjarlægður af lögreglu. En árásarmaðurinn lét sér ekki segjast.

Félagar Óttars, sem lá eftir alblóðugur og vankaður, komu honum til bjargar. Farið var með Óttar á slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hlúð var að honum, en þá var ekki orðið ljóst hversu alvarlegt ástand hans var.

Ástand Óttars var mjög alvarlegt á tímabili og hafa læknar tjáð honum að það sé kraftaverki líkast að hann sé enn á lífi. Blætt hafði verulega inn á heilann og næstu daga á eftir var alls óvíst að hann næði fullum bata. Hann segist allur vera að koma til þótt hann þjáist enn af svefnleysi og höfuðverkjum.

Óttar segir vel hlúð að öryggi öryggisvarða í starfi sínu, en segir ástandið í miðbænum um helgar skelfilegt.

Óttar segist hvergi banginn að fara aftur á næturvakt um helgar. Hann ber sig furðu vel miðað við að hafa verið milli heims og helju fyrir einungis 12 dögum en einhver tími líður þar til hann verður vinnufær. Hann segist ekki tilbúinn að fyrirgefa árásarmanninum strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×