Innlent

REI verði losað úr áhætturekstri

Breki Logason skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarmaður í Orkuveitur Reykjavíkur.
Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarmaður í Orkuveitur Reykjavíkur.

Fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur var að ljúka í húsi Orkuveitunnar nú fyrir stundu. Þar var ekki lögð fram tillaga um að hefja undirbúning að sölu REI eins og greint var frá í Fréttablaðinu í morgun. Hinsvegar var rætt hvort hægt sé að losa REI út úr þeim verkefnum sem þykja of áhættusöm líkt og Vísir sagði frá í morgun.

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að meirihlutinn í stjórn Orkuveitunnar hafi lagt fram tillögu sem er svohljóðandi:

„Megin tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur er að tryggja Reykvíkingum og öðrum notendum á heimamarkaði góða þjónustu á sem bestu verði en ekki að taka þátt í áhættusömum fjárfestingum erlendis.

Með það að markmiði að staðið verði vörður um þessa kjarnastarfsemi og mikilvægt almannaþjónustuhlutverk fyrirtækisins samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að unnin verði úttekt á REI og verðmat á verkefnum þess með það fyrir augum að fyrirtækið geti einbeitt sér að ráðgjöf og þróun á verkefnum en hugað verði að sölu á þeim verkefnum sem ekki er nauðsynleg til þeirrar starfsemi.

Þekking starfsmanna Orkuveitunnar verði áfram nýtt á vettvangi REI og Orkuveitu Reykjavíkur til ráðgjafaþjónustu í þágu fyrirtækja á sviði jarðhitaverkefna og umhverfisvænna orkugjafa samkvæmt sérstöku samkomulagi."

Júlíus segir að tillagan hafi síðan verið rædd og leggur áherslu á að ekki sé búið að samþykkja hana enn.

„Til þess að að reyna að ná sem bestri samstöðu var ákveðið að fresta tillögunni en hún verður síðan rædd á sérstökum samstarfsfundi innan nokkurra daga áður en hún verður tekin fyrir á formlegum stjórnarfundi næst. Það verður semsagt gengið sem lengst í að vinna þetta í sem mestri sátt og samlyndi," segir Júlíus.

Hann segir að nú verði farið yfir þau verkefni sem eru í gangi en engin afstaða verði tekin strax um þau verkefni enda geti ýmis verðmæti legið í þeim.

„Með þessu er verið að draga úr áhættu sem fylgir verkefnum sem þessum og það er verið að gera starfsemi REI léttari og markvissari enda á félagið mörg sóknarfæri," segir Júlíus að lokum

Minnihlutinn lét bóka á fundinum að nái þessar breytingar fram að ganga gæti það gert Orkuveituna skaðabótaskylda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×