Innlent

Krefst gagna um matvælafrumvarp

Atli Gíslason.
Atli Gíslason.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, krefst allra gagna sem varða samningaviðræður Íslands við ESB í sambandi við matvælafrumvarpið svokallaða, en í því er opnað fyrir innflutning á hráu kjöti til landsins. Alþingi frestaði afgreiðslu málsins á dögunum en Atli vill fá skýringar á því hvers vegna fallið hafi verið frá undanþágu sem Ísland hafði um innflutning á hráu kjöti.

Atli hefur því sent Arnbjörgu Sveinsdóttur, formanni nefndarinnar, Einari K. Guðfinnsyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, bréf þar sem að krafist er allra gagna er varða samningaviðræður Íslands við ESB vegna frumvarpsins.

„Eins og alþjóð er kunnugt að þá frestaði Alþingi nýverið afgreiðslu á málinu enda hafði ekki farið fram nein skoðun á því hverjar afleiðingarnar yrðu á því að leyfa innflutning á hráu kjöti fyrir heilsu manna og dýra sem og íslenska matvælaframleiðslu," segir í tilkynningu frá Atla.

Atli segist allt frá því að málið kom til kasta sjávarútvegs- og lanbúnaðarnefndar hafa krafist fyrrnefndra gagna því að ekki hafi komið fram af hálfu stjórnvalda af hverju þau féllu frá undanþágu sem Ísland hafði um innflutning á hráu kjöti, að hans sögn. „Það er algjör frumforsenda í umfjöllun þessa máls að þessi gögn liggi fyrir og hneyksli að nefndarmönnum hafi ekki fyrir löngu verið afhent þau."

Bréf Atla má lesa í heild sinni hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×