Innlent

Vandræðaganginum verður að linna

Vandræðaganginum varðandi áfangaheimili borgarinnar verður að linna, sagði Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri - grænna, í bókun á borgarráðsfundi í dag. Þar var fjallað um þá ákvörðun velferðarráðs frá því í síðasta mánuði að hætta viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun um rekstur búsetuúrræðis fyrir einstaklinga sem eru að ná sér eftir vímuefnameðferð og hefja viðræður við aðra aðila sem sóttu um að sinna úrræðinu.

Fyrirhugað var að opna í haust áfangaheimili í Hólavaði í Norðlingaholti á vegum Heilsuverndarstöðvarinnar. Vísir greindi frá því í júlí að eigandi raðhúsalengjunnar við Hólavað var lýstur gjaldþrota í apríl. Einn kröfuhafa leysti eignir fyrirtækisins til sín.

Svandís lét bóka að þann 7. ágúst hefði borgarráðsfulltrú Vinstri grænna lagt til að að viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun yrði hætt og teknar upp viðræður við SÁÁ um að taka úrræðið að sér. Tillögunni hefði verið vísað frá borgarráði til umsagnar velferðarráðs. Sú umsögn hefði ekki enn borist.

,,Hér er lögð fram tillaga um að hætta viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun en jafnframt að hefja viðræður við alla sem áður hafa komið að málinu og þar með talið þá aðila sem verið er að hætta viðræðum við. Af þessum sökum situr borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hjá við afgreiðsluna en væntir þess jafnframt að málið sem þolir enga bið sé loks komið í þann farveg að viðunandi lausn fáist fyrir þann hóp sem um ræðir. Vandræðaganginum verður að linna," sagði borgarfulltrúi Vinstri - grænna.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks létu þá bóka að mikilvægt væri að ljúka mállinu enda hafi velferðarráð nú sett málið í farsælan farveg með því að hefja á jafnræðisgrundvelli viðræður við þá

aðila sem sótt hafa um að sinna þessum verkefnum.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans og fyrrverandi borgarstjóri, blandaði sér einnig í umræðuna og sagði alvarlegt mál að málið væri aftur komið á byrjunarreit. ,,Ég gagnrýni flaustursleg vinnubrögð og samráðsleysi formanns velferðarráðs sem er ein meginorsök þess að þetta þýðingarmikla mál hefur lent í miklum ógöngum," sagði Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×