Innlent

Barinn í höfuðið með golfkylfu

Mjög annasamt var hjá lögreglunni í miðborg Reykjavíkur í nótt. Fjórir ungir menn réðust á annan og börðu hann í höfuðið með golfkylfu af þvílíku afli að hún brotnaði. Lögregla segir ótrúlegt að maðurinn skuli ekki hafa slasast meira en raunin varð en hann fékk að fara heim að lokinni skoðun á slysavarðstofunni. Lögregla handsamaði mennina en þrír þeirra eru 17 ára og einn 18. Að öðru leyti var mjög mikið að gera hjá lögreglunni, mikið um útköll vegna ölvununar og fólk var víða ósjálfbjarga vegna hennar, að sögn lögreglu.

Þá stóðu lögreglumenn tvo menn að innbroti í húsi í austurborginni og gista þeir nú fangageymslur og voru klefar lögreglu fullir eftir nóttina.

Í Hafnarfirðinum var bíll mældur á 135 kílómetra hraða þar sem leyfilegt er að aka á 80. Lögreglumenn ráku upp stór augu þegar þeir komust að því að sá sem sat undir stýri er 16 ára gamall og þar að auki var hann með fjóra farþega í bílnum. Foreldrar drengsins voru vaktir og látnir sækja hann á lögreglustöðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×