Innlent

Stútur gaf upp nafn tvíburabróður við afskipti lögreglu

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og sektaði hann um 60 þúsund krónur fyrir að aka ölvaður og segja rangt til um nafn sitt þegar lögregla hafði afskipti af honum.

Maðurinn var stöðvaður fyrr á þessu ári í Hveragerði. Bæði þegar hann var stöðvaður og svo við yfirheyrslu á lögreglustöðinni gaf maðurinn upp nafn og kennitölu tvíburabróður síns. Daginn eftir skýrslutökuna hafði hann hins vegar samband við lögreglu og játaði brot sitt.

Hann gerði það einnig fyrir dómi og var það metið honum til refsilækkunar. Maðurinn hafði hins vegar áður verið tekinn fyrir ölvunarakstur og varð það metið honum til refsiþyngingar. Þá var maðurinn sviptur ökurétti ævilangt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×