Innlent

Dópsmygl og ofbeldisbrot fylla Litla-Hraun

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Litla-Hraun.
Litla-Hraun.

Í kjölfar fíkniefnamála og ofbeldishrinu á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga hafa margar gæsluvarðhaldskröfur verið settar fram. Í gær kom upp sú staða að ekki var pláss fyrir gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir óalgengt að fangelsi fyllist vegna gæsluvarðahaldsúrskurða.

,,Þessi staða kemur upp þegar mikið gerist í einu og um er að ræða marga í sama máli eða mörg mál á sama tíma," segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun. ,,Það koma tímabil þar sem jafnvel enginn er í eingangrun en það líður lengra og lengra á milli þess."

Núna sitja 18 einstaklingar í gæsluvarðhaldi og helmingur þeirra er í einangrun. Erlendur segir að ekki sé þörf á vista alla gæsluvarðahaldsfanga í einangrun en vegna rannsóknarhagsmuna er það oft á tíðum nauðsynlegt.

Sex menn eru í einangrun á Litla-Hrauni, tveir í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og einn í fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu. Erlendur segir fangelsismálastofnun hafa heimild fyrir því að vista gæsluvarðhaldsfanga í fangelsi lögreglunnar en aðspurður segir hann aftur á móti að það sé ekki heppilegt.

Spurður hvort plássleysið undirstriki ekki nauðsyn þess að byggt verði nýtt fangelsi segir Erlendur; ,,Það liggur í augum uppi að við þurfum betri aðstöðu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×