Innlent

REI verður ekki selt

Borgarstjóri stendur fast á því að fyrirtækið REI verði ekki selt. Hann telur tillögu meirihluta stjórnar Orkuveitunnar, þess efnis að áhættuverkefni fyrirtækisins verði seld, ekki víkja frá þeirri stefnu sem stýrihópur um REI markaði.

Samkvæmt tillögu meirihlutans sem að lögð var fram á stjórnarfundi Orkuveitunnar í gær verður gerð úttekt á REI og núverandi verkefni fyrirtækisins verðmetin. Þau verkefni sem teljast vera áhættuverkefni verða seld svo fyrirtækið geti einbeitt sér að ráðgjöf og þróunarverkefnum. Ólafur F. Magnússon borgarstjóri er sáttur við tillöguna. Hann segir hana í sátt við alla borgarfulltrúa og ekki víkja út frá þeirri stefnu sem að mörkuð er frá stýrihópnum og samstaða er um í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann telur að meira sé gert úr ágreiningi um málið heldur en raunverulega er og upplifir engar sérstakar áhyggjur í þessu máli.

Borgarstjóri stendur fast á því að REI verði ekki selt og telur tillöguna ekki fela í sér skref í þá átt. Aðalatriðið sé að ekki verði blandað saman eignaraðild með einkaaðilum því að það má skilgreina það sem hluta af einkavæðingu og að það verði engin einkavæðing á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×