Skoðun

Heilbrigðisþjónustu haldið uppi á yfirvinnu?

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM skrifar

Okkur Íslendingum hefur löngum verið innrætt að hér sé heilbrigðisþjónusta með miklum ágætum. Markmið stjórnvalda eru háleit, sem sést meðal annars á því að þegar til stendur að reisa sjúkrahús er það kennt við hátækni. Okkur dugar ekki venjuleg tækni, ekki hefðbundinn gæðastaðall, við viljum aðeins það besta. Enda um að ræða æðstu heilbrigðisstofnun landsins, rekna af íslenska ríkinu.

Sem heilbrigðisstarfsmaður veit sú sem þetta skrifar að hátæknin hefur þegar borist til landsins. Það er nú þegar krafa okkar að hér sé veitt besta möguleg heilbrigðisþjónusta.

Það sem á hefur skort að mati okkar sem berum uppi hátæknina, er raunsæ stefna í mannauðshluta kerfisins.

Menn hljóta að staldra við og hugsa um stund þegar yfir vofir neyðarástand vegna boðaðs yfirvinnubanns hjúkrunarfræðinga í ríkisþjónustu.

Getur hátækniheilbrigðiskerfið ekki borið sig án yfirvinnu?

Er starfsfólkið svo fáliðað að hver og einn þurfi að skila meiri vinnu en hann réði sig til?

Getur verið að það sama gildi um fleiri heilbrigðisstéttir en hjúkrunarfræðinga?

Er þetta sá raunveruleiki sem við viljum búa við?

Finnst okkur í lagi að fólkið sem gætir lífs okkar og lima búi við langvarandi manneklu og óhóflegt starfsálag?

Skapar þetta ástand traust um að hönnuðir hátækniþjónustunnar hugsi fyrir öllu?

Mannekla á heilbrigðisstofnunum er að mati flestra heilbrigðisstétta til komin vegna lakra launakjara. Faglegur metnaður og vilji til góðra verka er nægur, hugsjón starfsmanna sterk.

Þiggjendur heilbrigðisþjónustu vita hvers virði hún er.

Tryggjum veitendum hennar þau kjör sem þeir eiga skilin!






Skoðun

Sjá meira


×