Innlent

Segja ríkisstjórnina ekki ætla að taka mark á áliti

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins segir svar íslenskra stjórnvalda við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem snýr að fiskveiðikerfinu staðfesta að ríkisstjórnarflokkarnir ætli ekki að taka mark á álitinu og halda áfram að brjóta mannréttindi. Þetta kemur fram í ályktun frá þingflokknum.

Eins og fram hefur komið komst mannréttindanefndin að því að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi með fiskveiðikerfinu.

Frjálslyndir gagnrýna að engar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu séu kynntar fyrir mannréttindanefndinni og einungis boðað að efnt verði til allsherjarskoðunar á kerfinu „í náinni framtíð", með breytingar í huga.

„Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli ekki taka alvarlega álit frá nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem á að meta hvort mannréttindi séu í heiðri höfð hjá aðildarþjóðunum og hvort íslensk löggjöf samræmist skuldbindingum sem eru í þeim alþjóðlegu samningum sem íslensk stjornvöld og Alþingi hafa samþykkt að undirgangast. Á sama tíma leitar utanríkisráðherra Íslands eftir stuðningi þjóða heims við umsókn Íslendinga um sæti í Öryggisráðinu, þeirri stofnun sem tryggja á að mannréttindi séu haldin í heiminum," segir í ályktuninni.

Telur þingflokkurinn að ríkisstjórnin hefði strax og álit mannréttindanefndarinnar lá fyrir átt að leita eftir samráði við þingflokka stjórnarandstöðunnar og freista þess að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu svo tryggt væri að mannréttindabrot Íslendinga með núverandi kerfi heyrðu sögunni til.

Þá segjast frjálslyndir áfram berjast gegn fiskveiðikerfinu og fordæmi afstöðu ríkisstjórnarinnar að hunsa álitið, sem beri vott um valdhroka, skort á dómgreind og virðingarleysi fyrir mannréttindum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×