Innlent

Björgvin í neytendatúr um landið

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hyggst á næstu tveimur vikum efna til funda víðs vegar um landið þar sem fjallað verður um neytendamál.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu er þetta liður í stefnu ríkisstjórnarinnar að byggja upp öflugt ráðuneyti neytendamála innan viðskiptaráðuneytisins. Unnin hefur verið skýrsla um stöðu neytenda á Íslandi og til þess að fylgja henni eftir er efnt til fundarraðar. Fyrsti fundurinn verður annað kvöld á Selfossi en sá síðasti á Ísafirði eftir tvær vikur.

„Neytendamál snerta alla íbúa landsins og því mikilvægt að sem flestum gefist kostur á að láta sín sjónarmið í ljós og þannig taka virkan þátt í stefnumótun á þessu sviði. Markmið fundanna er hvoru tveggja að kynna það stefnumótunarstarf sem þegar hefur farið fram og að kalla eftir sjónarmiðum fólks um allt land. Fjölmargir góðir gestir munu leggja Björgvin G. Sigurðssyni lið, til að mynda fulltrúar allra þingflokka á Alþingi og ýmsir framámenn á sviði neytendamála," segir enn fremur í tilkynningu viðskiptaráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×