Innlent

Tvær kærur til viðbótar á háskólakennarann

Lögreglan í Reykjavík. Alls kæra níu einstaklingar háskólakennarann fyrir kynferðisbrot.
Lögreglan í Reykjavík. Alls kæra níu einstaklingar háskólakennarann fyrir kynferðisbrot.

Tvær kærur hafa bæst við á hendur háskólakennaranum sem situr nú í gæsluvarðhaldi. Hann er grunaður um gróf kynferðisbrot gagnvart börnum. Rannsókn er á lokastigi en hluti málsins hefur þegar verið sendur ríkissaksóknara

Alls eru kærurnar á hendur háskólakennaranum því orðnar níu.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar í Reykjavík, staðfestir að hluti málsins sé þegar farinn til ríkissaksóknara. Hins vegar hafi bæst við tvær kærur fyrir um tveimur vikum; stefnt sé að því að ljúka rannsókninni sem fyrst, áður en maðurinn losni úr gæsluvarðhaldi.

"Þetta eru allt í allt níu kærur, fjórar fyrir utan fjölskylduna," segir Björgvin. Hann vill ekki tjá sig um hvernig samstarfið við þann ákærða hafi gengið eða hvort játning liggi fyrir. "Við stefnum að því að ljúka málinu í næstu viku, áður en gæsluvarðhaldið rennur út. Það er það eina sem ég get sagt."

Mál háskólakennarans vakti mikinn óhug. Hin meintu brot gegn börnunum voru gróf, endurtekin og teygðu sig yfir langan tíma. Svo langan að líklegt er að tvö brotanna séu þegar orðin fyrnd.

Oddgeir Einarsson, lögmaður háskólakennarans, segist hafa fengið staðfestingu frá ríkissaksóknara á fyrningu brotanna tveggja. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×