Innlent

Landsmenn skulda að meðaltali 4,5 milljón vegna bankahrunsins

Íslendingar verða ein skuldsettasta þjóð veraldar í vikulok gangi stjórnvöldum allt að óskum. Upphæð lánanna sem sóst er eftir hljóðar upp á ríflega 1.400 milljarða króna. Það þýðir að vegna bankahrunsins tekur hver Íslendingur á sig fjórar og hálfa milljón í skuld. 

Nú er ljóst að íslenska þjóðin mun greiða þær upphæðir sem lágu inn á Icesave reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, að hámarki um 20 þúsund evrur á hvern reikning. Upphæðin sem nefnd hefur verið í því sambandi eru um 600 milljarðar króna.

Við eigum ekki fyrir þeim skuldum og því verður næsta skref að reyna að komast að samkomulagi við Breta og Hollendinga, jafnvel fá þá til að lána Íslendingum fyrir þeim.

Algerlega virðist á huldu hvort eða hversu skammt eignir Landsbankans hrökkva upp í þessa upphæð og skiptir í dag ekki öllu máli. Það mun taka fleiri ár að koma eignunum í verð og lán verður tekið fyrir Icesave milljörðunum.

Það að íslensk stjórnvöld hafa nú viðurkennt að þjóðinni beri að standa við Icesave skuldbindingar gerir það að verkum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun að öllum líkindum taka umsókn Íslands um 2,1 milljarða dollara lán fyrir í vikunni. Það gera um 280 milljarða króna. En það þarf meira. Vonast er eftir um 4 milljörðum dollara frá Norðulöndunum og Evrópusambandinu.

Þessi lánapakki hljóðar upp á 800 milljarða íslenskra króna.

Lán vegna Icesave skuldbindinga er metið á 600 milljarða íslenkra króna.

Þetta eru um 1.400 milljarðar króna.

Það þýðir á mannamáli að hver Íslendingur, kornabörn og ellilífeyrisþegar meðtaldir, tekur á sig fjóra og hálfa milljón, í skuld, vegna bankahrunsins.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.