Innlent

Framkvæmdir við Landeyjahöfn hefjast á næstu vikum

Öll tilboð í hafnar- og vegagerð við Landeyjahöfn voru töluvert undir kostnaðaráætlun. Framkvæmdir hefjast á næstu vikum en áætlað er að höfnin verði tilbúin eftir tvö ár.

Gerð Landeyjahafnar markar nokkur tímamót enda verður það eina ferjuhöfnin frá Þorlákshöfn að Höfn í Hornafirði. Framkvæmdir við gerð hafnarinnar hefjast innan skamms en áætlað er að fyrsta áfanga, gerð varnargarða við Ála og Markarfljót, verði lokið 1. nóvember næstkomandi. Samhliða hafnargerðinni verður lagður nýr vegur meðfram vestanverðu Markafljóti frá þjóðvegi 1 að Bakkafjöru og verður hann 11,8 kílómetra langur, auk þess sem gerðir verða tengivegir við Bakkaflugvöll.

Á þessum vegi verður 20 metra löng brú yfir Ála sem verður tilbúin þann 1. maí næstkomandi. Sjálf hafnargerðin er gríðarlega umfangsmikil en hún felst meðal annars í gerð tveggja brimvarnargarða sem ná 600 metra út í sjó, en samanlagt verða þeir 2,9 kílómetra langir. Þeir eiga að verða komnir í fulla lengd næsta haust. Áætlað er að verkinu ljúki að fullu þann 1. júlí 2010.

Opnað var fyrir tilboð í gær og voru öll tilboð umtalsvert undir kostnaðaráætlun sem var rúmur 3,1 milljarður króna. KNH. ehf átti hæsta tilboðið sem hljóðaði upp á tæpa 2,8 milljarða, eða 90 prósent af kostnaðaráætlun. Lægsta tilboðið átti Suðurverk í Hafnarfirði upp á 1 milljarð, 867 þúsund krónur, eða rétt rúmlega 60 prósent af kostnaðaráætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×