Innlent

Meintir lottósvikahrappar í Flórída svara fyrir sig

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sigling til Bahama-eyja var meðal þess sem ASTAR bauð Gunnari Kristinssyni.
Sigling til Bahama-eyja var meðal þess sem ASTAR bauð Gunnari Kristinssyni.

Meintir svikahrappar hjá fyrirtækinu ASTAR í Flórída segja það alrangt að þeir stundi þá starfsemi að svíkja fé út úr grandlausu fólki með því að komast yfir kreditkortaupplýsingar þeirra í skjóli þess að korthafarnir hafi fengið lottóvinning.

Vísir greindi frá því á þriðjudag er Gunnar Kristinsson fékk upphringingu og ræddi í framhaldinu í klukkustund við starfsmenn ASTAR sem reyndu hvað þeir gátu til að fá hann til að gefa þeim upp kreditkortanúmer hans. Hvöttu mennirnir Gunnar meðal annars til að kynna sér heimasíðu fyrirtækisins og birti Vísir hlekk sem vísaði á hana auk hlekks að síðu þar sem varað er við fyrirtækinu en þar er að finna nokkrar færslur fólks sem kveðst hafa orðið fyrir barðinu á ASTAR.

Bradley Worten hjá All Seasons Travel & Resorts inc. (ASTAR) segir fyrirtækið vera ferðaþjónustuaðila með allt sitt á hreinu og öll tilskilin leyfi til að rækja starfsemina. Hann segir það leitt ef íslenskir viðskiptavinir hafi misskilið þjónustuna en fyrirtækið bjóði mjög hagstæð afsláttarkjör sem felist í ferðalagi um Flórída fyrir aðeins 998 bandaríkjadali. Hann segir viðskiptavini ASTAR panta ferðina á vefsíðu fyrirtækisins en komi svo upp þær aðstæður að fólk þurfi að hætta við sé það hið einfaldasta mál að afpanta ferðina og fá endurgreitt komi ósk þar um fram innan 30 daga frá pöntun.

Worten segir það enn fremur ekki koma til greina að reynt sé að komast yfir kreditkortanúmer með bellibrögðum. Vissulega sé ASTAR fullkunnugt um netsíðu þar sem varað er við fyrirtækinu en færslur á þessari síðu séu allar runnar undan rifjum eins og sama mannsins. Sá stundi það að skrifa níð um fyrirtæki og stofnanir og krefjist í kjölfarið myndarlegrar fjárupphæðar fyrir að fjarlægja færslurnar af síðunni.

„Við munum halda heiðarlegum viðskiptaháttum okkar áfram enda höfum við komið okkur upp góðum orðstír eftir margra ára þjónustu við viðskiptavini okkar," skrifar Bradley Worten að lokum og gefur upp hvort tveggja síma sinn og netfang vakni frekari spurningar hjá blaðamanni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×